Ég heiti Arnar Ingvarsson, oft kallaður Addi, einu sinni var ég kallaður Addi Je, í Breiðholtinu er ég þekktur sem Addi hringspark og í fjölskylduboðum er ég þekktur sem Stígvélaði Kötturinn. Börn í fjölskyldunni spyrja ennþá hvort Stígvelaði kötturinn mæti ekki örugglega í jólaboðið og eru þá ekki að meina mig í búning heldur mig, Arnar Ingvarsson. Þau sjá mig bara sem Köttinn. Í búning eða ekki.
Eitthvað um mig:
Ég er svokallaður sjálfstæður listamaður/maður. Þar af leiðandi er vinnan mín og verkefni mjög fjölbreytt. Þar helst má nefna : Ég er að æfa sýningu með leikhóp sem ég stofnaði sem kallast Andlegu ofurhetjurnar. Ég er í spunaleikhóp og er á námskeiðum hjá Improv Ísland. Ég vinn sem ljósahönnuður í sjálfstæðum leiksýningum. Ég á kaffihús sem er staðsett í Tjarnarbíói. Ég er menntaður matreiðslumaður og frumkvöðull og hef hafið nám í tölvunarfræði. Þessa dagana vinn ég ekki mikið við matreiðslu heldur held mig við frumkvöðl í hinum ýmsu myndum. Ég á besta vin sem heitir Pjétúr og er trúður. Síðast en ekki síst á ég fjögurra ára son sem heitir Úlfur og ég sé ekki sólina fyrir honum.
Lotta og ég
Hér eru verkin sem ég tók þátt í með Lottu:
Galdrakarlinn í Oz: Þar lék ég Hinrik,vængapa og Galdrakarlinn í Oz.
Rauðhetta: Þar var ég hinn “venjulegi” pabbi Hans og Grétu og hinn sí þreytti Grís.
Hans klaufi: Í Hans klaufa lék ég Prinsinn og besta vin Hans Klaufa, froskinn sem enginn sá. Þetta hlutverk var mjög skemmtilegt en einnig mjög erfitt andlega og líkamlega þar sem ég fékk nákvæmlega engan focus nánast allt leikritið þar sem enginn af persónunum sá froskinn né heyrði í honum og mínar setningar voru bara hér og þar og aldrei fékk ég svar og það var bara horft í gegnum mig. Allir þeir sem hafa stigið á svið vita hversu mikilvægt það er að fá focus frá mótleikurum sínum og mótleik. En ég notaði þetta að sjálfsögðu bara í leiknum, því froskurinn var mjög leiður og pirraður vegna þess að enginn heyrði hvað hann sagði.
Mjallhvít: Þar lék ég Vondu drottninguna, það var mjög gaman. Hún var nett rugluð sú dama.
Stígvélaði Kötturinn: Loksins aðal! Alltaf gaman að vera aðalhlutverk og Stígvélaði kötturinn var svo sannarlega aðalkötturinn.
Það sem mér fannst skemmtilegast við að vera í Lottu var einfaldlega að leika, ég elska fátt meira en að leika og koma fram, þar er ég 100% í núinu og ekkert gefur mér meiri fyllingu í lífinu en að leika.
Uppáhalds persónan mín sem ég lék er Vonda Drottningin, fast á hæla drottningarninnar kemur svo Grís, þar á eftir er Hinrik svo Froskurinn. Ókei, ég get ekki gert upp á milli persónana minna. Það er engin í síðasta sæti. Jú, kannski Veiðimaðurinn, mér fannst hann alltof venjulegur eitthvað. Fyrir utan þegar ég var að skera upp Úlfinn í lokaatriðinu. Sem minnir mig á hressandi sögu sem ég skal segja í eins fáum orðum og ég get:
Lokasýning á Rauðhettu. Lokaatriðið, þar sem Veiðimaðurinn sker upp Úlfinn. Úlfurinn liggur á hlið í rúminu sofandi og snýr með bakið í Veiðimanninn og áhorfendur. Veiðimaðurinn læðist að Úlfinum og lyftir upp jakka Úlfsins til þess að komast betur að með hnífinn. Svona eins og Veiðimaðurinn var búin að gera á öllum hundrað sýningum sumarsins. Veiðimaðurinn bjóst bara við að sjá fagran afturendan á Úlfinum. En þá blasir við Veiðimanninum þessi fagri guli g-strengur sem kíkir smekklega upp úr buxum Úlfsins. Aldrei hef ég hlegið á sviði án þess að ætla mér það, nema þarna. Það var nánast ómögulegt að klára þetta hádramatíska atriði nema með bros á vör. Sem betur fer gat ég snúið baki í áhorfendur þegar ég var að skera hann upp. Til þess að toppa þessa sýningu þá endaði þetta að sjálfsögðu á því að enginn annar en Mikki Refur kom upp úr maga Úlfsins á eftir Grís, Grís, Grís og Rauðhettu.
Uppáhalds persónan mín, sem var ekki ég. Er að sjálfsögðu Hans klaufi. Skemmtilegast og einstakt að leika á móti honum og reyndar öllum persónum hjá Steina. Því Steini er besti grín leikari landsins. Í öðru sæti er ég og stefni ég að því að ná Steina fyrir árslok 2019. Í öðru sæti yfir uppáhalds persónur er Spegillinn. Enda varpaði hann svo einlægri mynd á mig sem leikara og persónu. Takk Baldur. ( Í alvörunni). Og takk fyrir táfýlusokka árásina. Hún er föst í huga mínum þessi lykt. Þessi lykt. Finn hana þegar ég hugsa um hana og þegar ég fer að sofa á kvöldin. Takk Baldur.
Uppháldslag er klárlega lagið sem ég tók með speglinum mínum sem var einmitt leikinn af Baldri. Þar sem við vorum að leggja á ráðin hvernig við myndum slátra Mjallhvíti. Hvernig var þetta nú aftur ??
“Við skulum setj´ana í sýrubað” - Já algjör gullmoli þetta lag.
Skemmtileg saga
Þegar ég var að leika Vondu drottninguna þá eðli málsins samkvæmt dressaði ég mig upp sem kona fyrir ca 120 sýningar það sumarið. Þannig að eftir u.þ.b. 60 sýningar er það orðið nokkuð eðlilegt að vera í kjól og farðaður. Eitt sinn eftir leikskólasýningu þá lá leið mín í banka, þar sem ég ætlaði að biðja um hækkun á yfirdrætti. Ég sest í stólinn hjá þjónustufulltrúanum og ræði við hann á alvarlegu nótunum um mikilvægi þess að ég fái hærri yfirdrátt. Þjónustufulltrúinn segist ætla að skoða málið og við kveðjumst. Þegar ég sest síðan út í bíl þá verður mér litið í baksýnisspegilinn svona til að tjékka aðeins á “lúkkinu”. Í speglinum blasir við mér þessi fallega kona því auðvitað eins og þú lesendi góður varst sennilegast búin að giska á þá gleymdi ég að þrífa framan úr mér málninguna. Í bankanum hafði ég sem sagt setið með eldrauðan kinnalit, gerviaugnhár, áteiknaðar augabrúnir, dökkvínrauðan varalit og niðurbælt og úfið hár eftir hárkollu svita. Við þetta dress var svo gallabuxur og dökkblá skyrta. Og þjónustufulltrúinn, þessi hetja, bara afgreiddi mig án þess að fara að hlæja eða brosa. Skál fyrir fordómalausum þjónustufulltrúa. Reyndar fékk ég svo neitun um hærri yfirdrátt.