top of page

Baldur Ragnarsson hefur verið í Leikhópnum Lottu alveg frá stofnun hans. Hver man ekki eftir stórbrotinni túlkun hans á Banjó-dýrinu í Hálsaskógi fyrsta starfsárið? Þó svo hann hafi toppað snemma hefur hann einnig tekið að sér önnur hlutverk í gegnum tíðina og má þar nefna Fuglahræðuna, Jóa í baunagrasinu, Úlfinn, strípuð náttúruöflin og Geisla.

 

Baldur hefur síðustu ár unnið sem sjálfstætt starfandi listamaður við það sem honum hefur fundist áhugavert hverju sinni. Hann hefur tekið í þátt í leiksýningum hjá ótal áhugaleikfélögum, Leikfélagi Akureyrar, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Tónlistin hefur alltaf staðið honum mjög nærri og eru langflest þessara verkefna, ef ekki hreinlega öll, tónlistartengd. Utan leikhússins er Baldur einnig í þónokkrum hljómsveitum og má þar nefna Ljótu hálfvitana. Skálmöld, Morðingjana, Innvortis og Dætrasyni.

 

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að hans styrkleikar eru helst nýttir í tónlistarsköpunina í Lottu. Að semja músík, spila inn á upptökur og hafa almenna skoðun á músík er hans náttúrulega umhverfi. En hann er engu að síður brúklegur í ýmislegt annað, til dæmis að ná í hlutina í efstu hillunni.

 

Baldur hefur tekið sér frí frá Lottu tvisvar sinnum, í Hróa Hetti og í Ljóta andarunganum. Hann er þó aldrei langt undan og kemur ávallt tvíefldur til baka.

BALDUR RAGNARSSON

bottom of page