Bella hafði aldrei stigið á svið áður en hún hóf að leika með Leikhópnum Lottu og okkur vitandi hefur hún ekki tekið neitt hlutverk að sér eftir að hún hætti að starfa með hópnum. Hún var með okkur í Galdrakarlinum í Oz árið 2008 og fór með hlutverk Tótós sem er hundurinn hennar Dórótheu.
Bella er eina alvöru dýrið sem hefur leikið í sýningum Lottu. Eða alla vega eina dýrið sem hefur átt að leika í sýningum Lottu. Þar sem við leikum utandyra spila hundar, kettir, fuglar og síðast en ekki síst flugur oft stóra rullu í sýningum okkar en það er ekki endilega viljandi.
Þótt Bella hafi búið með ketti var hún ekki hrifin af því að deila athygli með öðrum dýrum á sýningum. Ef hundar eða kettir mættu á sýninguna bað hún þá vinsamlegast um að fara með huggulegu gelti. Á einni sýningunni sniglaðist hvítur köttur í kringum okkur, hann mjakaði sér hæverskur inn á mitt sviðið og kom sér vel fyrir þar. Bella var ekki ánægð með senuþjófinn og tók því til sinna ráða. Hún gelti að kettinum þangað til hann þoldi ekki lengur við og fór af sviðinu. Á meðan á baráttu þeirra stóð þurftu aðrir leikarar sýingarinnar bara að gjöra svo vel og bíða. Þess má þó geta að atvikið vakti mikla kátínu hjá gestum.
Maia Maiendína Benediktsdóttir er eigandi Bellu og lánaði okkur hana yfir sumarið.
Í þessu myndbandi má sjá Bellu í fangi ljónsins.