top of page

Sævar samdi söngtexta í Hróa hött 2014 og Litaland 2016. Hann drakk í sig sögur og ævintýri sem barn og hóf mjög ungur að semja sín eigin, en einnig yrkja ljóð og söngtexta. Afskipti hans af leikhúsi hófust í Menntaskólanum á Akureyri þar sem hann lék í fjögur ár. Í Háskólanum tók hann þátt í að endurvekja Stúdentaleikhúsið en lék svo og skrifaði leikrit og söngtexta fyrir leikfélagið Hugleik í Reykjavík í mörg ár. Hann hefur einnig skrifað nokkur leikrit fyrir atvinnuleikhús ásamt félögum sínum; Góðverkin kalla fyrir Leikfélag Akureyrar, Vírus fyrir Stoppleikhópinn og Hafnarfjarðarleikhúsið – og Grímuverðlaunaverkin Klaufa og kóngsdætur fyrir Þjóðleikhúsið og Bólu-Hjálmar fyrir Stoppleikhópinn.

Þá gerði hann söngtexta í Átta konur og Mýrarljós fyrir Þjóðleikhúsið og Alvöru menn í Austurbæ. Hann var meðal handrits- og söngtextahöfunda að ævintýrum Stígs og Snæfríðar í Stundinni okkar í tvö ár og að fjórum áramótaskaupum sjónvarpsins 2009–2012. Þá samdi Sævar leikritið Ævintýri Múnkhausens fyrir Gaflaraleikhúsið 2012.

Sævar vinnur sem textasmiður á auglýsingastofu, en hann er einnig meðlimur í Ljótu hálfvitunum þar sem hann syngur og spilar á slagverk – og hefur samið nokkur lög og ófáa söngtexta fyrir hljómsveitina. Hann á einnig talsvert af söngtextum sem aðrir hafa sungið.

SÆVAR SIGURGEIRSSON

bottom of page